Storytelling

Facebook Storytelling and stitches

Grettir sterki – harmleikur í textíl

Frá 2016 til 2019 saumaði ég 10 myndteppi í ásaumstækni (ekki refill!!), sem túlka mína sýn á söguna um Gretti. Myndteppin eru notuð sem bakgrunnur þegar sagan er túlkuð. Stök teppi segja sögu Grettis, önnur miðla upplýsingum um sögutímabilið, eins og siglingar eða vopn þess tíma.

Sagan getur verið sögð á íslensku eða þýsku. Dagskráin er um 45 mín. á lengd, hún getur verið breytileg en hún hentar síður ungum börnum.

Hér finnur þú frekari upplýsingar um dagskrána um Gretti sterka.

1949 – örlagaríkt ár

Árið 1949 kom stór hópur þýskra innflytjenda til Íslands, sá stærsti á þessum tímum frá einu landi. Meirihluti var kvenfólk sem leitaði vinnu við landbúnaðarstörf, komandi frá stríðshrjáðu Þýskalandi í von um betra líf. Flestar settust að á Íslandi og er fjöldi afkomenda þeirra nú um 3000 einstaklingar.

Myndteppin um Áfall og von sýna veruleikann í Þýskalandi rétt eftir síðari heimsstyrjöld, leiðina til nýrra heimkynna, aðlögunina á Íslandi, hversdagsleikann og fegurð Íslands.

Verkefnið er í þróun.

Birnir

Eins og fram hefur komið hér að ofan hentar dagskráin um Gretti sterka síður ungum börnum. Það sama mætti segja um 1949-verkefnið. Þess vegna er ég að vinna að sögu um birni, sem gæti hentað yngri áhorfendum.

Birnir gegna ákveðnu hlutverki í Íslendingasögum. Til dæmis er Húnavatnssýsla, þar sem ég bý, nefnd eftir húnum tveim sem menn Ingimundar gamla landnámsmanns handsömuðu á stað sem síðan heitir Húnavatn. Á Hjaltlandi er oft sögð skemmtileg saga um björn sem kom frá Noregi og hvernig hann ílentist þar. Svo mætti lengi telja. Myndteppin um birni munu verða einföld (og alls ekki eins blóðug og hin) og munu þannig eiga frekar erindi til barna.

Verkefnið er í þróun.